Erlent

Írakskur Hitler að fæðast?

Írakskur Hitler gæti fæðst haldi óöldin í Írak áfram með niðurlægingu og örvilnun írakskra borgara. Þetta sagði forseti Íraks, Ghazi Yawar, í viðtali við arabískt dagblað í morgun. Hann sagði ástandið sambærilegt við það sem var í Þýskalandi eftir fyrri heimsstyrjöldina, og minnti á að að hefði reynst frjór jarðvegur fyrir Adold Hitler og nasisma. Árásir uppreisnarmanna og hryðjuverk hafa hindrað allt uppbyggingarstarf í Írak og ástandið þar er mjög slæmt. Í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC, sagði Yawar það ekki síst Bandaríkjamönnum og Bretum að kenna þar sem þeir hefðu gert þau reginmistök að leggja niður írakska herinn. Fyrirtaksmenn með hreinan skjöld hefði verið sendir heim ásamt með þrjótum sem einnig voru í hernun og algjört tómarúm hefði myndast sem nýr, írakskur her væri enn sem komið er ófær um að fylla. Réttast væri að kalla á ný til starfa þá her- og lögreglumenn sem ekkert hefðu gert af sér. Yawar gagnrýndi einnig nágranna Íraks fyrir að koma ekki Írökum til hjálpar. Hann sagði það hag nágrannaríkjanna þar sem þau ættu annars á hættu að þeir eldar sem loguðu í Írak breiddust út - og átti hann þar við uppreisn súnníta. Hann kvaðst einnig eiga von á fleiri ofbeldisverkum og árásum í aðdraganda fyrstu, frjálsu kosninga í Írak sem eiga að fara fram þann þrítugasta janúar næstkomandi. Að hans mati er vandinn ekki sá að halda kosningarnar, heldur að tryggja öryggi kjósenda svo að þeim sé kleift og óhætt að mæta á kjörstað og greiða atkvæði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×