Erlent

Blair óvænt til Bagdad

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, fór í óvænta heimsókn til Bagdad í gær og fundaði með Iyad Allawi, forsætisráðherra bráðabirgðastjórnar landsins. Þetta var þriðja heimsókn Blairs til Íraks og sú fyrsta síðan Saddam Hussein var handtekinn fyrir ári síðan. Með heimsóninni sagðist hann vilja leggja sitt af mörkum til að kosningarnar í Írak verði haldnar í janúar eins og stefnt er að. Á blaðamannafundi með Allawi sagði Blair að það væru aðeins tveir valkostir í Írak eins og sakir standa, lýðræði eða ógnarstjórn og það væri skylda Vesturlanda að aðstoða íraskan almenning að verða lýðræðisríki. Blair hitti starfsmenn undirbúningsnefndar kosninganna fyrir skömmu en stuttu síðar voru þrír þeirra dregnir úr bifreið sinni í Bagdad og myrtir. Hann segist hafa tjáð þeim að þeir væru hetjur hins nýja Íraks því þeir legðu líf sitt að veði til að stuðla að því að íraska þjóðin hefði örlög sín í eigin hendi. Blair varði þátttöku Breta í árásinni á landið og veru áttaþúsund breskra hermanna þar. Hann sagði að í fyrsta lagi myndi vera erlendra hermanna flýta fyrir uppbyggingu íraska hersins sem mun leysa hernámsliðið af hólmi. Í öðru lagi væru möguleikarnir fyrir Írak miklir og ef það tækist að gera Írak að stöðugu og lýðræðislegu ríki hefði það góð áhrif í Miðausturlöndum sem hefðu á endanum góð áhrif á alla heimsbyggðina. Allawi sagði á fundinum með Blair að íraska bráðabirgðastjórnin sé staðráðin í að halda kosningar í næsta mánuði þrátt fyrir að sumir leggi til að þeim verði frestað sökum stigvaxandi ofbeldis og sagði að það hefði verið gert ráð fyrir að það myndi magnast þegar nær drægi kosningum. Blair flaug til Bagdad frá Jórdaníu í gærmorgun en af öryggisástæðum var heimsóknin ekki tilkynnt fyrirfram. Eftir fundinn með Allawi hélt hann áleiðis til Basra og heilsaði upp á breska hermenn þar. Bush Bandaríkjaforseti fór síðast til Íraks fyrir rúmu ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×