Innlent

Sala símans skili miklum hagnaði

Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir því að sala á hlutabréfum ríkisins í Landssímanum skili umtalsverðum tekjum í ríkissjóð á næsta ári. Stefnt er að því að salan fari fram í kringum næstu áramót. Landssími Íslands er langstærsta fyrirtæki sem eftir er á sölulista ríkisstjórnarinnar. Einkavæðinganefnd hennar stefnir að því þegar í næsta mánuði að leggja fyrir ríkissjórnina tillögur um hvernig staðið verði að sölunni. Ólafur Davíðsson, formaður einkavæðingarnefndar segir að stjórnarflokkarnir hafi þegar markað línuna um sölu símans í stjórnarsáttmálanum. Það eina sem liggi ekki fyrir sé í hvaða áföngum og með hvaða hætti salan fari fram. Ólafur segir einkavæðinganefnd vera að undirbúa ákvarðanir sem lagðar verði fyrir ráðherranefnd sem tekur endanlega ákvörðun um hvernig salan fari fram. Ríkissjóður á núna 99% í Símanum. Ólafur segir engan verðmiða kominn á fyrirtækið en stefnt sé að því að ríkið fái umtalsverðar tekjur af sölunni á næsta ári. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru beinlínis fyrirmæli um að síminn skuli seldur en tekið fram að þess skuli gætt að salan fari fram þegar markaðsaðstæður eru hagstæðar.Ólafur segir að svo sé tvímælalaust nú. Einkavæðinganefnd hafi orðið vör við mikinn áhuga erlendra ráðgjafafyrirtækja að veita aðstoð við söluna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×