Erlent

Bremer farinn frá Írak

Bandaríkjamenn hafa falið Írökum stjórn landsins, tveimur dögum á undan áætlun, og Paul Bremer, landsstjóri í Írak, er farinn heim til Bandaríkjanna. Bremer afhenti bráðabirgðastjórn Íraks í morgun bréf þess efnis að fjórtán mánaða hernámi Bandaríkjanna væri lokið og Írakar færu nú aftur með stjórn landsins. Þetta gerðist í stuttri athöfn sem var lokið áður en tilkynnt var um hana. Ástæðan fyrir því að þessi háttur var hafður á er sú að menn vildu forðast hryðjuverk sem búast hefði mátt við ef athöfnin hefði verið opinber. Hryðjuverkasamtök hafa ítrekað lýst því yfir að að þau muni berjast gegn hinni nýju ríkisstjórn. Margir háttsettir embættismenn, og jafnvel ráðherrar, hafa verið myrtir undanfarnar vikur. Hryðjuverkasamtökunum er mikið í mun að skapa sem mesta upplausn í landinu. Óljóst er hvað nú tekur við en þó eru ekki miklar líkur til þess að friðsamlegt verði í Írak á næstunni. Bandarískt herlið verður áfram í landinu enda eru öryggissveitir Íraks engan vegin færar um að halda uppi lögum og reglu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×