Menning

Valin besti málflutningsmaðurinn

"Þetta er alveg frábær tilfinning," segir Hrafnhildur Gunnarsdóttir laganemi. Hrafnhildur bar sigur út bítum í Norrænu málflutningskeppninni ásamt félögum sínum úr Háskóla Íslands nú um helgina. Hún var einnig valin besti málflutningsmaður síns riðils sem verður að teljast góður árangur. Keppnin fór fram á sænsku, norsku og dönsku og talaði Hrafnhildur norsku í keppninni. Hún segist þó ekki vera altalandi á því tungumáli enda bjó hún þar aðeins um tveggja ár skeið í æsku."Ég á auðvelt með að lesa norsku en langar lögfræðilegar setningar geta vafist svolítið fyrir mér." Mikil vinna fór í undirbúning hjá íslenska liðinu en hann hófst strax í mars þegar liðið þurfti að skila ítarlegri greinagerð um málið. "Við heltum okkur síðan aftur í vinnu eftir próflesturinn og 21. maí byrjuðum við að vinna í ræðunum. Ég var fyrsti ræðumaður míns liðs og reyndi að setja málið skýrt fram," segir Hrafnhildur og bætir því við flutningurinn hafi gengið mjög vel. Þrátt fyrir að hafa verið valin besti málflutningsmaður riðilsins segist Hrafnhildur ekki hafa verið betri en aðrir í íslenska liðinu. Úrslitin komu íslenska liðinu mikið á óvart enda í fyrsta skipti sem Ísland kemst í úrslit. "Við vorum ánægð að hafa náð í úrslit og höfðum ákveðið að fagna vel sama hvernig þau færu. Síðan fóru þau svona ótrúlega skemmtilega þannig að við erum auðvitað í skýjunum." Hrafnhildur vinnur þessa dagana að lokaritgerð sinni við lagadeildina ásamt því að starfa sem flugfreyja. Hún segir framhaldið þó óráðið. "Mér þykir lögmennska spennandi en eins hef ég mikinn áhuga á refsirétti og að vinna fyrir ákæruvaldið." Þau Ari Karlsson, Hervör Pálsdóttir, Heiða Björg Pálmadóttir, Sesselja Sigurðardóttir og Þórunn Pálína Jónsdóttir skipuðu íslenska liðið ásamt Hrafnhildi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.