Menning

Lægri vextir í boði en áður

Bílalán höfðu í upphafi það orð á sér að bera háa vexti. Síðan hafa þau þróast og hafa um allnokkurt skeið verið ódýrari en almenn bankalán. Nú hefur lánaumhverfið í landinu breyst og taka þær breytingar einnig til bílalána. Sú nýbreytni var tekin upp á árinu að bjóða einstaklingum lán til bílakaupa í erlendri mynt en áður var sá kostur aðeins í boði til fyrirtækja. Er nú svo komið að bílalán eru með hagstæðari skammtímalánum sem einstaklingar eiga völ á. Við leituðum upplýsinga hjá tveimur fyrirtækjum, Glitni og SP fjármögnun sem hafa sérhæft sig í bílalánum. Hjá Glitni varð Margrét Sigurðardóttir fyrir svörum. Hjá henni kom fram að Glitnir byði ferns konar kjör á sínum lánum: Verðtryggt lán í íslenskum krónum á 6,5% vöxtum. Óverðtryggt lán í íslenskum krónum á 9,2% vöxtum. Lán í erlendri mynt, svokallaðri körfu sem er samansett úr eftirtöldum gjaldmiðlum: dollurum 25% japönskum jenum 15% svissneskum frönkum 20% evrum 40% Miðað við gengi 3. nóvember eru vextir á slíku láni 4,2% Einnig eru lán í boði sem samanstanda af: 50% í íslenskum krónum og 50% úr erlendri myntkörfu (sömu gjaldmiðlar og áður eru taldir - í helmingi lægri hlutföllum) Miðað við gengi 3. nóvember eru vextir á slíku láni 5,36% og Margrét segir þau vera vinsæl hjá fólki. Lánin eru að hámarki 80% af kaupverði bíls og lánað er til allt að sjö ára en bíllinn má ekki vera eldri en frá 1998. Miðað er við samanlagt lán og aldur bíls. (Tveggja ára bíll þýðir að hámarki fimm ára lán). Hjá SP fjármögnun er einnig miðað við lán til sjö ára að hámarki að sögn Ólafs Þórs Gunnarsonar ráðgjafa þar. Reglan er sú sama og hjá Glitni, (samanlagt lán og aldur bíls). Hjá SP er hægt að fjármagna bílakaup með allt að 80% láni en ekki til eldri bíla en frá árinu 2000. Myntkarfan er sú sama og hjá Glitni og vextir eru 4,2% til 4,55%. Önnur myntkarfa er þar líka í boði þar sem dollarinn er 40% og evran, svissneskur franki og jen, 20% hvert. Þá eru vextir frá 4,17%. Auk þess eru hefðbundin skuldabréf í boði hjá SP fjármögnun. Verðtryggð frá 6,5% og óverðtryggð frá 9,2% Dæmi um kaup: Tveggja ára bíll á 2.000.000 og 80% lán til fimm ára. Mánaðarleg afborgun er 30.400 krónur á mánuði miðað við lán í erlendri mynt á því gengi sem í gildi var 3. nóvember. Þetta gildir bæði um Glitnislán og SP fjármögnun.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.