Erlent

Janukovitsj verði rekinn úr starfi

Stjórnarandstaðan í Úkraínu hefur stillt Leonid Kútsjma, fráfarandi forseta Úkraínu, upp við vegg. Júlía Tímósjenko, aðstoðarkona Viktors Júsjenko, sagði í gærkvöld að Kútsjma hefði tíma þar til í kvöld til að uppfylla kröfur stjórnarandstöðunnar. Mikil ólga hefur ríkt í landinu síðan Viktor Janukovitsj, forsætisráðherra landsins, var lýstur sigurvegari forsetakosninganna 21. nóvember. Talið er fullvíst að Janukovitsj hafi svindlað í kosningunum og hefur Júsjenko sem og Evrópusambandið farið fram á að kosningarnar verði endurteknar. Spennan í landinu hefur stigmagnast undanfarna viku og nú krefst stjórnarandstaðan þess að Kútsjma reki Janukovitsj úr starfi. Kútsjma er yfirlýstur stuðningsmaður Janukovitsj. Stjórnarandstaðan krefst þess líka að ríkisstjórar í nokkrum héruðum í austurhluta landsins, sem hótuðu aðskilnaði frá vesturhlutanum, verði reknir. Einnig er þess krafist að stokkað verði upp í yfirkjörstjórn landsins en þingið samþykkti í gær vantraust á yfirkjörstjórnina. Um hundrað þúsund manns mótmæltu á götum Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu, í gær. Langflestir þeirra eru stuðningsmenn Júsjenko. Tímósjenko ávarpaði fjöldann í gær og sagði að ef Kútsjma yrði ekki við kröfum stjórnarandstöðunnar myndi hann verða sóttur til saka fyrir glæpi gegn eigin þjóð. Í kjölfarið hrópaði mannfjöldinn slagorð: "Niður með Kútsjma". Fulltrúar Júsjenko og Janukovitsj hafa fundað undanfarna daga um lausn deilunnar en lítið hefur þokað. Fulltrúar Janukovitsj hafa meðal annars farið fram á að Júsjenko beiti sér fyrir því að stöðva mótmælin á götum borgarinnar en Júsjenko hefur þvertekið fyrir það. Hæstiréttur Úkraínu fjallar í dag um áfrýjun Júsjenko vegna kosningaúrslitanna. Fulltrúar Janukovitsj hafa gefið í skyn að rétturinn hafi ekki heimild til að ógilda kosingarnar en Júsjenko vísar því á bug.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×