Menning

Liza Marklund til Íslands

Sænski metsölu- og spennusagnahöfundurinn Liza Marklund er væntanleg til Íslands dagana 1.- 3. september í tilefni af útkomu bókarinnar Úlfurinn rauði. Rithöfundurinn hefur sent frá sér sjö bækur sem selst hafa í yfir 5 milljónum eintaka á 26 tungumálum en Úlfurinn rauði er fimmta bókin sem þýdd er á íslensku. Sænska sendirráðið á Íslandi, Norræna húsið og Ari útgáfa bjóða Lizu til landsins en hún áritar bækur í Norræna húsinu, föstudaginn 3. september.

Norræna húsið er þá öllum opið og hefst dagskráin kl. 20. Lesendum og aðdáendum Lizu gefst einnig kostur á að spyrja hana spjörunum úr og leikkonan Þrúður Vilhjálmsdóttir les valda kafla úr Úlfinum rauða. 

Anna R. Ingólfsdóttir er íslenski þýðandi Lisu Marklund en hún leitaði strax til Halldórs Guðmundssonar útgáfustjóra Máls og menningar eftir að hafa lesið Sprengivarginn í Svíþjóð fyrir nokkrum árum. Bókin var gefin út á íslensku og í kjölfarið fylgdu Stúdíó Sex og Paradís. Síðar stofnaði Anna Ara útgáfu og tryggði sér rétt á komandi bókum Marklund. Ari útgáfa hefur gefið út Villibirtu og Úlfinn rauða og mögulegt er að fyrsta bók Marklund, sem á sænsku heitir Gömda, verði einnig þýdd á íslensku.

Gömda vakti mikla athygli þegar hún kom út í Svíþjóð 1995 en hún er sannsöguleg og fjallar um unga konu sem sætir sjúklegum ofsóknum frá barnsföður sínum. Eftir áralangan flótta undan manninum hröklast konan úr landi og var Liza Marklund á tímabili hennar eini tengiliður við umheiminn. Nýjasta bók Lizu, Asyl, kom út á árinu og er framhald af Gömda. Bókin segir frá aðdragandanum þess að konan varð sú fyrsta frá Svíþjóð til að fá pólitískt hæli í Bandaríkjunum.



"Liza Marklund höfðar alltaf betur og betur til mín," segir Anna R. Ingólfsdóttir. "Hún tekur á málum fólks sem er að standa sig og er á kafi í atvinnulífi. Hún fjallar um þjóðfélagsmál sem eru ofarlega á baugi hverju sinni og sem dæmi segir Úlfurinn rauði frá fári sem kom upp eftir að sænski menntamálaráðherran breytti fjölmiðlafrumvarpi á síðustu stundu. Bókin er skáldsaga en um leið og ég hafði lokið við að þýða hana kom deilan upp um fjölmiðlafrumvarpið hér á landi."

Úlfurinn rauði er væntanleg í verslanir á næstu dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.