Erlent

Stór svæði í rúst

Stór svæði í borginni Fallujah eru í rúst eftir harðar árásir bandarískra og íraskra hermanna sem nú hafa staðið í viku. Uppreisnarmenn í borginni veita enn mótspyrnu. Bandaríkjamenn hafa beitt bæði stórskotaliði, orrustuþotum og herþyrlum, í stórárás sinni á Falluja, en bardagarnir þar hafa nú staðið í eina viku. Bandaríkjamenn segja að þeir hafi borgina á sínu valdi, þótt enn sé veitt þar nokkur mótspyrna. Sagt er að 1200 uppreisnarmenn hafi fallið í bardögunum, 38 bandarískir hermenn, og sex íraskir hermenn. Um 120 þúsund íbúar Fallujah flúðu borgina þegar bardagarnir hófust, en hætt er við að margir þeirra finni heimili sín í rúst, þegar þeir snúa aftur. Bandaríkjamenn hafa afþakkað aðstoð Rauða hálfmánans, og segja að þeir hafi sínar eigin birgðir sem þeir geti miðlað þeim af, sem enn eru í borginni. Yfir tíuþúsund bandarískir hermenn tóku þátt í árásinni á Fallujah, en talið er að uppreisnarmenn hafi verið á bilinu tvö til þrjúþúsund.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×