Komnir inn í miðborgina
Fjörutíu og fimm írakskir löggæslumenn féllu í árásum skæruliða skammt frá Bagdad í morgun. Harðir bardagar geisa í Fallujah og hafa bandarískar hersveitir komið sér fyrir í hjarta borgarinnar. Bandarískar og írakskar hersveitir réðust í gær til atlögu gegn uppreisnarmönnum súnníta, sem þúsundum saman halda til í borginni, og héldu hersveitir áfram sókn sinni í nótt. Uppreisnarmenn veita harða mótspyrnu og geisa miklir bardagar í borginni og heyrast sprengingar og skothvellir víða. Fyrir stundu komust bandarískar hersveitir til miðborgar Fallujah en markmið þeirra er að brjóta niður mótstöðu og tryggja frið fyrir kosningarnar í Írak sem haldnar verða í janúar. Á sama tíma og hersveitir herða sókn sína í Fallujah berast fréttir af því að sjálfsmorðssprengjuárásir hafi verið gerðar í Bagdad og í Bakúba, sem er skammt frá Bagdad, og að minnst 45 manns hafi fallið. Þá var varðstöð stjórnarhermanna í Kirkuk, sem er í grennd við helstu olíuvinnslusvæðin, sprengd í loft upp í morgun.