Viðskipti innlent

Engin ógn af uppgreiðslu lána

Uppgreiðsla lána Íbúðalánasjóðs ógnar ekki stöðu sjóðsins, að sögn Halls Magnússonar, sérfræðings hjá Íbúðalánasjóði. Við breytingu húsbréfa í íbúðabréf tók Íbúðalánasjóður ný lán sem ekki eru með uppgreiðsluheimild. Því kann sú staða að koma upp að sjóðurinn geti ekki greitt upp sín lán þótt lántakendur sjóðsins greiði lán sín upp að fullu og sjóðurinn þannig setið uppi með fjármuni sem hann geti ekki notað til uppgreiðslu lána. En að sögn Halls var ráð fyrir þessu gert við undirbúning breytinganna og þessi hætta er því ekki fyrir hendi. "Ástæðan er sú að við skildum eftir 30 prósent af húsbréfaeigninni, af því að við gerðum okkur grein fyrir að núverandi ástand gæti komið upp," segir Hallur. Hann segir að vegna þessara húsbréfaeignar sjóðsins þurfi uppgreiðsla lána að fara í 100 milljarða áður en vandræðaástand skapist. "Þó svo að við höfum ekki gert ráð fyrir að uppgreiðsla lána myndi eiga sér stað svo fljótt sem raun ber vitni og í svo miklum mæli, þá er þetta ekki mál til að hafa áhyggur af," segir Hallur. Hann vill ekki gefa upp í hve miklum mæli lántakendur sjóðsins hafa greitt upp sín lán að undanförnu en segir þær mun lægri en lántökutölur bankanna gefi til kynna. "Bankarnir eru í raun með þessum nýjum lánum að minnka vaxtatekjur sínar af útlánum. Áhrif nýju lánanna hafa þvi miklu meiri áhrif á þá en Íbúðalánasjóð," segir Hallur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×