Erlent

Skaut vopnlausan uppreisnarmann

Rannsókn er hafin á því hvernig á því stóð að bandarískur hermaður skaut særðan og vopnlausan írakskan uppreisnarmann í höfuðið í borginni Fallujah. Atvikið náðist á myndband, sem hefur farið sem eldur í sinu um heiminn. Atburðurinn átti sér stað í mosku í suðurhluta Fallujah sem uppreisnarmenn höfðu notað sem bækistöð fyrir árásir á Bandaríkjaher. Svo virðist sem bandarískir hermenn hafi síðasta föstudag brotið sér leið inn í moskvuna og þá féllu tíu íraskir uppreisnarmenn og fimm særðust. Þessir fimm særðu voru afvopnaðir og skildir eftir, að öllum líkindum átti að ná í þá seinna og flytja á sjúkrahús. Það var hins vegar ekki gert og þegar annar hópur bandarískra hermanna kom í moskvuna á laugardag, í fylgd myndatökumanns og fréttamanns frá bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC, lágu Írakarnir fimm illa særðir og flestir dauðvona. Á myndbandi sjónvarpsstöðvarinnar sést þar sem einn bandarísku hermannanna stendur yfir einum af föngunum og fullyrðir að hann sé að látast vera dauður. Hann lyftir síðan rifflinum og skýtur fangann í höfuðið. Fréttamaður NBC segir að fanginn hafi hvorki verið vopnaður né ógnandi á nokkurn hátt. Svo virðist sem hermaðurinn sem skaut fangann í moskunni í Fallujah hafi daginn áður, sjálfur orðið fyrir skoti í kinn en verið kominn aftur á vakt. Atvikið er litið mjög alvarlegum augum enda klárt brot á alþjóðalögum og stríðsglæpur, ef satt reynist. Óklippt útgáfa af myndbandinu hefur gengið um Arabaheiminn og vakið enn harðari andstöðu gegn hersetu Bandaríkjamanna í Írak og vakið minningar um pyntingar bandarískra hermanna á íröskum föngum í Abu Ghraib fangelsinu. Bandaríkjaher segist nú hafa náð Fallujah á sitt vald en fréttamenn segja þó enn barist í suðurhluta borgarinnar. Borgin er sögð nánast rústir einar og hjálparsamtök vara við því að þeir borgarbúar sem ekki höfðu tök á því að flýja hafi nú verið bæði vatns- og rafmagnslausir í meira en viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×