Erlent

Rice hreppti hnossið

Condoleeza Rice tekur við af Colin Powell sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna og er búist við opinberri yfirlýsingu þessa efnis strax í dag. Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, hittir Powell síðar í dag. Rice hefur starfað sem þjóðaröryggisráðgjafi í ríkisstjórn Bush frá upphafi en hún er einnig náinn persónulegur vinur forsetans og starfaði fyrst í ríkisstjórn Bush eldri. Hún hallast að hinum herskárri armi ríkisstjórnarinnar en Powell var nánast sá eini í Bush stjórninni sem var í hópi hófsamra. Eitt af meginverkefnum Rice sem þjóðaröryggisráðgjafa hefur reyndar verið að reyna að stilla til friðar og ganga á milli meginandstæðinganna í Bush stjórninni; þeirra Powells og Donalds Rumsfelds, varnarmálaráðherra sem hafa verið á öndverðum meiði í nánast öllum stærstu utanríkismálum Bandaríkjanna síðustu fjögur árin. Gagnrýnendur Rice segja að henni hafi svo sem ekki farist það neitt sérstaklega vel úr hendi og hafi látið mörg vandamál óleyst. Sérsvið Rice eru kjarnorkumál og samningar um þau við Norður Kóreu og Íran og þá er hefur hún verið lykilmanneskja Bandaríkjastjórnar í friðarsamningum Ísraels og Palestínu sem reyndar hafa ekki haggast þau árin sem hún hefur verið í starfi. Hins vegar er búist við því að nú, í kjölfar andláts Arafats, muni friður fyrir botni Miðjarðarhafs, verða eitt aðalverkefni hennar. Það er erfitt að spá fyrir um það hvort þessi ráðherraskipti í Bandaríkjunum hafi einhver áhrif á samningaviðræðurnar um framtíð Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Davíð Oddsson hittir Powell um klukkan hálf sjö í kvöld en ekki búist við neinum stórtíðindum af þeim fundi, aðeins að þeir komi sér saman um nokkurs konar viðræðuáætlun. Powell hefur verið Íslendingum haukur í horni og talið er að Rice muni að sjálfsögðu virða alla þá samninga eða skuldbindingar sem Powell gengur frá, ef um slíkt verður að ræða. Að öðru leyti er hún nánast óskrifað blað hvað varðar samskipti við Íslendinga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×