Erlent

Þingið hafni kosningúrslitum

Stjórnvöld í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, hafa hvatt úkraínska þingið til þess að samþykkja ekki úrslit nýafstaðinna forsetakosninga. Í yfirlýsingu frá borgarráði Kænugarðs segir að miklar efasemdir séu uppi um að rétt hafi verið staðið að kosningunum og því sé eðlilegt að þingið neiti að samþykkja úrslitin. Sem kunnugt er bentu útgöngutölur til þess að stjórnarandstæðingurinn Viktor Yuschenko færi með sigur af hólmi, en miklar sviptingar urðu þegar leið á talninguna og fór svo að lokum að núverandi forsætisráðherra, Viktor Yanukovich, fékk fleiri atkvæði. Stuðningsmenn Yuschenko eru hinsvegar handvissir um að brögð hafi verið í tafli og neita að samþykkja úrslit kosninganna. Fyrir skömmu bárust yfirlýsingar frá Evrópusambandnu um að rétt væri að endurtaka forsetakosningarnar, þar sem þær hafi ekki uppfyllt lýðræðisleg skilyrði. Talsmenn allra aðildarríkja ESB hyggjast senda Úkraínumönnum orðsendingu, þar sem hvatt verður til þess að kosningarnar verði endurteknar og farið verði að ítrustu skilyrðum um lýðræðislega framkvæmd þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×