Erlent

Brögð í tafli?

Viðtæk kosningasvik voru framin í Úkraínu, að mati kosningaeftirlitsmanna. Forsætisráðherra landsins var í dag lýstur sigurvegari forsetakosninga, en tugir þúsunda mótmælenda sætta sig ekki við niðurstöðurnar. Fimmtíu þúsund manns mótmæltu opinberum niðurstöðum kosninganna í miðborg Kænugarðs í dag, en útgönguspár bentu eindregið til þess að Viktor Yushchenko, frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, myndi bera sigur úr býtum. Það kom því mörgum á óvart og spánskt fyrir sjónir þegar kjörstjórn sagði forsætisráðherra landsins hafa verið kjörinn næsta forseta Úkraínu. Erlendir kosningaeftirlitsmenn höfðu líka eitt og annað við kosningarnar að athuga. Þeir sögðu kosningarnar ekki hafa uppfyllt skilyrði ESB og fleiri alþjóðastofnana um lýðræðislega framkvæmd. Richard Lugar, formaður utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, var í Kænugarði og sagði í dag, að ekki færi á milli mála að stjórnvöld hefðu staðið fyrir umfangsmiklu og víðtæku kosningasvindli. Þetta er vatn á milli stjórnarandstæðinga en engin viðbrögð bárust frá stjórnarflokknum eða fráfarandi forseta, Leonid Kutchma, sem sakaður er um aðild að svindlinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×