Erlent

Kosningasvindl í Úkraínu

Tugir þúsunda manna mótmæltu meintu kosningasvindli í forsetakosningunum í Úkraína á götum Kiev og annarra borga landsins gær. Samkvæmt opinberum tölum bar Viktor Janukovitsj, forsætisráðherra landsins, sigurorð af Viktor Júsjenko í kosningunum. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópum, Evrópuþingið og Atlantshafsbandalagið hafa tilkynnt að framkvæmd kosninganna hafi ekki verið í samræmi við reglur. Þrátt fyrir þetta óskaði Vladímír Pútín, forseti Rússlands, Janukovitsj til hamingju með sigurinn í gær. Evrópusambandið hefur hins vegar brugðist við með öðrum hætti. Hafa þau ríki sambandsins sem hafa úkraínsk sendiráð í borgum sínum komið mótmælum á framfæri við sendiherrana. "Við erum mjög áhyggjufullir yfir þeim fréttum sem við höfum fengið," sagði Bernard Bot, utanríkisráðherra Hollands. Fagnaðarlæti brutust út á götum Kiev og tveggja annarra borga í gær þegar borgarráð þeirra tilkynntu að þau viðurkenndu ekki úrslit kosninganna. Júsjenko, sem andstætt Janukovitsj, vill efla tengslin við Vesturlönd hvatti fólk í gær til að halda mótmælunum áfram þar til sigur hans væri viðurkenndur. Ggrannt er fylgst með þróun mála í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel enda geti úrslit þeirra haft veruleg áhrif á samstarf landsins og bandalagsins. Úkraínumenn, sem verið hafa í samstarfi við bandalagið, hafa á síðustu árum heitið ýmsum umbótum, þar á meðal í framkvæmd kosninga þar í landi sem löngum hafa verið gagnrýndar fyrir að vera ólýðræðislegar. Málið verður rætt á fundi fastafulltrúa Natóríkjanna í dag þar sem búast má við að mótaðar verði hugmyndir um hvernig bregðast skuli við. Fyrir ráðherrafundi bandalagsins, áttunda og níunda desember, liggur svo að ákveða endanlega hvað skuli gert og hvort draga eigi úr samstarfinu við Úkraínu. Atlantshafsbandalagið hefur meðal annars átt í samstarfi við landið um endurskipulagningu herafla þess, auk þess sem bandalagið hefur verið með upplýsingaskrifstofu í Úkraínu til að vinna að lýðræðisumbótum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×