Erlent

Senda eftirlitsnefnd til Palestínu

Evrópusambandið mun senda eftirlitsnefnd til Palestínu til að fylgjast með forsetakosningunum þegar kosið verður um eftirmann Jassers Arafat sem lést á sjúkrahúsi í París 11. nóvember. Nefndin sem Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakka, mun stjórna verður skipuð þingmönnum Evrópuþingsins. Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna funduðu í gær um hvernig best væri að koma friðarviðræðum milli Ísraela og Palestínumanna í gang á nýjan leik. Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, fer til Jerúsalem og Ramallah seinna í vikunni þar sem hann mun ræða við þarlenda ráðamenn um friðarferlið. Javier Solana, utanríkisráðherra Evrópusambandsins, og Ben Bot, utanríkisráðherra Hollands, verða fulltrúar Evrópusambandsins á fundi um málefni Ísraels og Palestínu í Egyptalandi í dag. Á fundinum verða einnig Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×