Erlent

Mikið blóðbað í morgun

Minnst sjötíu og einn er látinn eftir röð sjálfsmorðsárása í þremur borgum í Írak í morgun. Ekkert lát er á sprengjuárásum og mannránum í Írak þrátt fyrir að ný lýðræðislega kjörin ríkisstjórn, skipuð heimamönnum, hafi nú tekið til starfa. Alls fjórar sjálfsmorðssprengjuárásir hafa verið gerðar í Írak í morgun sem er með mesta móti, jafnvel í Írak þar sem fregnir berast af a.m.k. einni sprengjuárás á hverjum degi. Mest mannfall varð þegar árásarmaður sprengdi sig í loft upp í miðjum hópi verkamanna í heimabæ Saddams Husseins, Tíkrit. Þrjátíu og þrír hið minnsta létust. Skömmu síðar gekk maður, hlaðinn sprengiefnum, inn í ráðningarstöð írakska hersins í borginni Hajiwa og sprengdi sig í loft upp. Þriðji árásarmaðurinn sprengdi bíl sinn í loft upp við lögreglustöð í Bagdad og annar árásarmaður keyrði bíl inn í hóp lögreglumanna og sprengdi. Sannkallað stríðsástand hefur ríkt að undanförnu í Írak og alls hafa um 400 Írakar látið lífið í árásum uppreisnarmanna frá því ný ríkisstjórn tók við völdum fyrir hálfum mánuði. Í Anbar-héraði ríkir algert upplausnarástand en það hérað er einna róstursamast í öllu landinu og miðstöð erlendra málaliða. Héraðsstjóra Anbars-héraðs var rænt í gær og uppreisnarmenn hóta að drepa hann ef Bandaríkjamenn fara ekki með herlið sitt burt frá borginni Qaim. Þar hafa meira en hundrað uppreisnarmenn verið drepnir undanfarna daga í áhlaupi Bandaríkjahers á vígi uppreisnarmanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×