Innlent

Átök framsóknarkvenna

Una María Óskarsdóttir fyrrum aðstoðarmaður Sivjar Friðleifsdóttur var felld úr stjórn Freyju, félags framsóknarkvenna í Kópavogi á aðalfundi á fimmtudagskvöld. Una var varaformaður félagsins. 43 konur höfðu skráð sig í félagið fyrr um daginn með aðstoð Aðalheiðar Sigursveinsdóttur. Aðalheiður er kona Páls Magnússonar aðstoðarmanns Valgerðar Sverrisdóttur viðskipta- og iðnaðarráðherra. Lögmæti fundarins hefur verið dregið í efa. Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, segir að á framkvæmdastjórnarfundi flokksins í gær hafi verið ákveðið að vísa málinu til laganefndar hans. Gagnrýnt hefur verið að félagskonur hafi ekki vitað um fjölgunina í félaginu. Konur hafi skráð sig sem ekki séu með heimilisfang í Kópavogi. Meðal þeirra sé Edda Björg Hákonardóttir, eiginkona Árna Magnússonar félagsmálaráðherra bróðir Páls, sem búsett sé í Hveragerði. Aðalheiður segir konurnar hafa farið að lögum Framsóknarflokksins. Ekkert mæli gegn því að Edda skrái sig í félagið. Hún meti stuðning hennar mikils. Heimildamenn segja að með innkomu kvennanna í félagið sé stuðningsmönnum Páls Magnússonar fjölgað verulega. Þrjú félög starfi í Kópavogi. Þau kjósi fulltrúa inn í fulltrúaráð sem raði á prófkjörslista og ráði leikreglum hans. Stefnan sé tekin á að Páll Magnússon leiði framsókn í næstu bæjarstjórnarkosningum. Aðalheiður segir umræðuna skondna. "Ég hef ekki heyrt að Páll sé á leiðinni í framboð í Kópavogi. Hann hefur verið á vettvangi landsmálanna en hann er og verður gríðarlega sterkur í Kópavogi." Aðalheiður segir markmiðið hafa verið að koma Sigurbjörgu Vilmundardóttur, fyrrum ungliða framsóknarflokkins sem settist í bæjarstjórn Kópavogs við fráfalls Sigurðar Geirdals, að sem fulltrúa Freyju í næstu bæjarstjórnarkosningum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×