Innlent

Sjálfstæðismenn með langmest fylgi

Sjálfstæðismenn bera höfuð og herðar yfir aðra flokka á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt nýrri skoðanakönnun Frjálsrar verslunar. Framsóknarflokkurinn mælist í annað sinn á einni viku með um fimm prósenta fylgi í höfuðborginni. Í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Frjáls verslun gerði fyrir vefsvæðið Heim.is, kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn er með mest fylgi á landsvísu, eða 39 prósent. Samfylkingin kemur næst með 30 prósenta fylgi. Þetta er nokkuð meiri munur en mælst hefur á milli flokkanna tveggja í nýlegum könnunum Fréttablaðsins og IMG Gallup. Sé litið á fylgi flokkanna á höfuðborgarsvæðinu kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 47 prósenta fylgi sem er meira en tuttugu prósentum meira en Samfylkingin sem nýtur fylgis ríflega fjóðrungs höfuðborgarbúa. Þá mælist Framsóknarflokkurinn aðeins með 5 prósenta fylgi í höfuðborginni, sem er einungis fjórðungur af fylgi Vinstri - grænna í sama kjördæmi. Í könnun Fréttablaðsins í síðustu viku mældist fylgi framsóknarmanna í Reykjavík 4,8 prósent. Í kjölfar þeirrar könnunar sagði Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, að könnun Fréttablaðsins endurspeglaði ekki raunveruleikann. Niðurstöður þeirrar könnunar væru á skjön við aðrar nýlegar kannanir. Fylgi flokksins í Reykjavík mælist þó nánast það sama í könnun Frjálsrar verslunar nú. Rétt er þó að hafa í huga að þegar búið er að skipta landinu með þessum hætti verður töluverð tölfræðileg óvissa í hverju kjördæmi fyrir sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×