Innlent

Gísli Marteinn með fund í Iðnó

Gísli Marteinn Baldursson varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins ætlar að tilkynna í dag hvaða sæti hann stefnir á að ná í prófkjöri flokksins sem fram fer í haust. Stuðningsmenn Gísla hafa boðað til fundar í Iðnó klukkan 3 í dag. Þar mun einn ötulasti stuðningsmaður Gísla og æskuvinur hans, Rúnar Freyr Gíslason, ávarpa fundarmenn og síðan er búist við yfirlýsingu Gísla Marteins. Hann er sjálfur þögull sem gröfin um hvað muni felast í tilkynningunni, en hann hefur áður lýst því að hann ætli sér að komast til áhrifa og metorða innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna. Fréttablaðið fullyrti í gær að Gísli stefndi að því að leiða listann í vor, en enn sem komið er hefur einungis einn maður lýst því yfir; Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðismanna. Gísli sagði í samtali við fréttastofu laust fyrir hádegi að á annan tug stuðningsmanna sinna ættu frumkvæði að þessum fundi, þeir hefðu ákveðið í samráði við hann að boða til hans, eftir að Gísli hafði upplýst þá um að hann hefði gert upp hug sinn um hvert markmið hans og metnaður væri fyrir komandi kosningar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×