Erlent

Bandaríkjamenn vilja viðræður

Uppreisnin í Írak, með endalausum hryðjuverkum og árásum, hefur nú staðið í hartnær tvö ár og ekkert bendir til þess að nokkuð hafi dregið úr kraftinum. Klofningur virðist hins vegar kominn upp á milli ólíkra hreyfinga uppreisnarmanna, klofningur sem Bandaríkjamenn vilja notfæra sér, samkvæmt fréttatímaritinu TIME. Þar segir að fulltrúar bandarískra stjórnvalda hafi átt leynilega fundi með fulltrúuum svokallaðra þjóðernissinnaðra uppreisnarmanna. Það eru einkum fyrrverandi háttsettir menn innan stjórnar Saddams Husseins, súnnítar sem misst hafa völd og eru reiðubúnir að berjast - eða semja, sé það vænlegra. Tveir fundir eru sagðir hafa farið fram þó að Bandaríkjamenn vilji ekki viðurkenna það opinberlega. Hermt er að þessir uppreisnarmenn sjái fyrir sér írska aðferð: að þeir geti haldið áfram andspyrnu í anda IRA en jafnframt haft afskipti af stjórnmálum eins og Sinn Fein. Bandaríkjamenn vilja hins vegar með þessu reyna að valda frekari klofningi og deilum á milli ólíkra hópa og vonast þannig til að þær berjist frekar hver við aðra en írakska herinn og hersetuliðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×