Sport

Sveittur og kaldur með Liverpool

Sigursteinn Brynjólfsson formaður Liverpool klúbbsins á Íslandi á von á því að Jerzy Dudek og Milan Baros fari frá félaginu innan skamms og útilokar ekki að Michael Owen komi jafnvel aftur til Anfield. Sigursteinn ætlar á Players í kvöld að horfa á seinni leik Liverpool og Kaunas frá Litháen í 2. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Sýn og hefst kl. 18:45. "Það er alltaf fullt hús á Players þegar Liverpool er að spila. Þetta er samheldinn hópur sem kemur saman og fær sér einn sveittan hamborgara og kaldan öl meðan liðið okkar er að spila." sagði Sigursteinn í stuttu spjalli við Vísir.is nú síðdegis. Hann á von á því að Fernando Morientes og Djibril Cisse byrji inn á í kvöld. Þá segist hann ánægður með nýja markvörðinn, Jose Reyna, og finnur það á sér að Dudek sé á förum frá félaginu. "Dudek er svo óvarfærinn í orðum sínum, alltaf að gefa öðrum liðum undir fótinn með yfirlýsingum sínum. Svo hefur hann ekki enn fengið að spila í Meistaradeildinni í sumar þannig að það bendir flest til þess að hann fari eitthvað annað." "Eins með Milan Baros þá held ég að hann sé á förum. Ég vona bara að við fáum gott verð fyrir Baros." sagði Sigursteinn og sagðist aðspurður alltaf vera möguleika á að Owen komi aftur. "Það er reyndar háð því hvort við fáum gott verð fyrir Baros. Þegar hann fer þá vantar einn sóknarmann og Owen vill leika í Meistaradeildinni." sagði Sigursteinn að lokum áður en hann klæddi sig í Liverpool treyjuna fyrir kvöldið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×