Erlent

Á fimmta tug fórst í flugslysi

Að minnsta kosti 41 lést þegar þota af gerðinni Boeing 737-200 nauðlenti í Amazon-frumskóginum í Perú á þriðjudagskvöld. 56 þar til viðbótar voru fluttir á sjúkrahús, misalvarlega slasaðir. Sumir fengu að fara heim að skoðun lokinni. Vélin, sem var í eigu perúska flugfélagsins TANS, var á leið frá Líma, höfuðborg Perú, til borgarinnar Pucallpa í Amazon-frumskóginum. Hún lenti hins vegar í ofsaveðri í aðflugi að flugvellinum í Pucallpa. Því þurftu flugmenn vélarinnar að nauðlenda henni um 30 kílómetrum sunnan við borgina. Reynt var að draga úr skellinum með því að lenda í mýri en við lendinguna brotnaði vélin í tvennt og brak úr henni dreifðist um svæðið. Talið er að sviptivindur hafi komið á vélina í nauðlendingartilrauninni svo að hún skekktist með þessum afleiðingum. Sum fórnarlambanna áttu fótum sínum fjör að launa þegar þeir óðu mýrardrulluna áður en kviknaði í brakinu. Flestir þeirra sem létust voru Perúmenn en þar að auki létust bandarísk kona, kólumbísk kona og ítalskur karl. Ekki hefur enn tekist að bera kennsl á öll líkin og að minnsta kosti þriggja er enn saknað. Slæmar veðuraðstæður gerðu björgunarmönnum erfitt um vik og ekki var hægt að leita að fólki aðfaranótt miðvikudags vegna myrkurs og veðurofsa. Forstjóri flugfélagsins þvertekur fyrir að vélarbilun eða einhvers konar tæknilegur galli hafi valdið slysinu heldur hafi veðrinu verið einu um að kenna. Svörtu kassar vélarinnar fundust síðdegis í gær og er búist við að innihald þeirra geti varpað frekara ljósi á málið. Vél í eigu sama flugfélags fórst í janúar 2003 þegar hún rakst á fjall á svipuðum slóðum. Þá létust allir þeir 42 sem voru um borð. Þetta er fimmta þotuslysið í heiminum á innan við mánuði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×