Erlent

Tugir farast í flóðum

Að minnsta kosti 34 hafa látist í stórflóðunum í Mið-Evrópu á um það bil viku. Rúmenía hefur orðið verst úti en þar hafa 25 manns látist í flóðunum. Yfir 250 manns þurftu að flýja heimili sín í Bern, höfuðborg Sviss í gær og yfirvöld í Rúmeníu sögðu fólk hafa drukknað í svefni í rúmum sínum í fyrrinótt. Þýskar herþyrlur hafa undanfarna daga hjálpað til við björgunarstörf og að flytja fólk frá heimilum sínum. Loka hefur þurft hraðbrautum og öðrum þjóðvegum og þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín í Austurríki, Sviss, Þýskalandi, Tékklandi, Króatíu, Rúmeníu og víðar. 150 manna hópur þurfti svo að dúsa í verslunarmiðstöð í bænum Worgl í Austurríki yfir nótt áður en bátur frá austurríska hernum kom og bjargaði fólkinu blautu og köldu. Talið er að tjón af völdum flóðanna hlaupi á milljörðum króna. Í gær skein þó sól víða á flóðasvæðum og vonast fólk til þess að það versta sé afstaðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×