Erlent

Fimmta flugslysið í mánuðinum

Að minnsta kosti 41 fórst og 56 særðust þegar reynt var að nauðlenda farþegaflugvél í Perú í gærkvöldi. Þetta er fimmta farþegavélin sem ferst í mánuðinum. Vélin var frá perúska flugfélaginu TANS og var á leið frá höfuðborginni Lima til Iquitos í norðri með millilendingu í Pucallpa. Að sögn Jorges Belevans, talsmanns TANS, breyttust veðurskilyrði til hins verra þegar vélin nálgaðist flugvöllinn og því neyddist áhöfnin til að nauðlenda henni. Eitt hundrað manns voru um borð í vélinni, flestir frá Perú, en staðfest er að hinir látnu séu af að minnsta kosti fjórum þjóðernum. Vélin brotnaði í tvennt við lendinguna, en svo virðist sem flugmaðurinn hafi ætlað að reyna að lenda á hraðbraut en ekki hitt á hana. Búið er að finna svarta kassann og er hann nú til rannsóknar hjá flugmálayfirvöldum í Perú. Þessa ágústmánaðar verður líklega minnst með hryllingi og sorg í flugsögunni, því þetta er fimmta farþegavélin sem ferst í mánuðinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×