Innlent

Heldur áfram baráttunni

Meirihluti allsherjarnefndar afgreiddi í dag frumvarp um að kynferðisafbrot gegn börnum fyrntust ekki. Stjórnarmeirihlutinn samþykkti að afgreiða frumvarpið úr nefndinni með þeirri breytingu að kynferðisafbrot gegn börnum byrjuðu nú að fyrnast er þau ná átján ára aldri en áður var miðað við fjórtán ár. Umrædd tegund kynferðisbrota fyrnast á 5-15 árum. Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingar, vill að slík brot fyrnist ekki, enda hafi þau þá sérstöðu að koma oft og tíðum seint fram í dagsljósið Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, segir að frumvarpið gangi gegn meginreglu um fyrningar í hegningarlögum þar sem það geri engan greinarmun á alvarleika kynferðisbrota. Þá séu aðrar leiðir til að koma til móts við þá staðreynd að brotaþolar leiti sér seint aðstoðar. Þ.a.l. sé það óþarfi, að mati meirihlutans, að fella niður fyrningarfrestinn í öllum brotunum, þó því sé ekki hafnað alfarið að fara þá leið í alvarlegustu tilvikunum. „En við teljum rétt að þetta sé tekið til skoðunar á vettvangi ráðuneytisins og skoðað samhliða öðrum breytingum sem við teljum að þurfi að eiga sér stað á lögunum,“ segir Bjarni. Ágúst Ólafur segir að ekki sé nóg að gert. Hann segir það þó mikinn sigur að fá málið út úr nefndinni því það sé óalgengt um þingmannamál frá stjórnarandstöðu. Hann ætlar að halda áfram baráttunni því honum finnst ekki verið að veita börnum landsins nægilega réttarvernd með breytingartillögu meirihlutans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×