Erlent

Fengu milljónir úr sjóðum

Íslensku fyrirtækin GLM og Balis í Norður-Noregi sem úrskurðuð hafa verið gjaldþrota og Fréttablaðið sagði frá í gær, fengu tugi milljóna króna í styrki og lán frá norskum þróunarsjóðum á síðustu árum. Eigendur fyrirtækjanna eru nú gufaðir upp og eftirlýstir af skattayfirvöldum í Norður-Noregi auk þess sem fjöldi kröfuhafa í þrotbú þeirra vill hafa hendur í hári þeirra. GLM stendur fyrir Green Line Machines og er móðurfyrirtækið skráð á Íslandi en dótturfyrirtækið GLM Norway er skráð í Narvik í Norður-Noregi. Ætlun eigenda GLM var að framleiða fiskiker úr plasti eftir nýjum aðferðum sem þróaðar hafa verið í Frakklandi og áttu tæki og form til framleiðslunnar að koma þaðan. Balis sem var staðsett í bænum Ballangen skammt sunnan við Narvik og sömuleiðis í eigu Íslendinga, var í samstarfi við GLM en eitt rannsóknaratriði skattayfirvalda í Norður-Noregi eru flókin fjárhagsleg tengsl fyrirtækjanna. Meðal annars vantar öll gögn í bókhald GLM um útgjöld upp á nærri 15 milljónir króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×