Erlent

Björgunarfólkið hinar nýju hetjur

Bretar tala þessa dagana um nýjar hetjur, fólkið sem fór niður í lestargöngin til að hjálpa þeim sem særðust í sprengjuárásunum á fimmtudag og gátu ekki bjargað sér út sjálfir. Ein þeirra sem komu slasaða fólkinu til bjargar er Helen Long, starfsmaður á lestarstöð, sem hugaði að manni sem missti neðan af fæti í sprengingunni þar til hjálp barst. Til að stöðva blæðinguna var belti lestarstjóra hert að fætinum. "Hann sagði mér að systir sín væri ófrísk og ætti að eiga skömmu fyrir jól. Ég sagði honum að gera sömu öndunaræfingar og ófrískar konur gera með því að anda stutt. Alltaf þegar hann var við það að falla í yfirlið reyndi ég að halda honum vakandi," sagði Long sem vék ekki frá hlið mannsins þá tvo klukkutíma sem liðu áður en hægt var að flytja hann á sjúkrahús. Ekki tókst þó að bjarga öllum og sagði Long frá því að ung kona hefði látist meðan hún hjálpaði manninum særða. "Hann bað mig margoft að lofa sér því að hann myndi ekki deyja." Slökkviliðsmaðurinn Terence Adams var á King's Cross stöðinni þegar sprengja sprakk. Hann og fleiri fóru inn í göngin til að hjálpa særðu fólki út. Hann sagði gríðarlega erfitt að ná fólkinu út sem var margt hvert fast í braki lestarvagnanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×