Skoðun

Hagnaðartölur og íslensk hlutabréf

Vangaveltur um hagnaðartölur og íslensk hlutabréf Mikið er rætt um hagnaðartölur þessa dagana og keppast fréttamiðlarnir um skýra frá hverju metinu á fætur öðru í þeim efnum. Maður fyllist allur bjartsýni yfir lífinu og tilverunni og liggur við að manni hlaupi kapp í kinn og einhendi sér í einhvern rekstur til þess að missa ekki af velferðinni. En þar sem maður hefur örlítinn vott af skynsemi kemst maður ekki hjá því að velta fyrir sér hvað sé í gangi í þjóðfélagi okkar. Stöldrum aðeins við, eru allar hagnaðartölur sem við heyrum tilkomnar af raunverulegum auknum verðmætum? Þegar betur er að gáð má sjá að oftar en ekki byggist hagnaðurinn á óinnleystum gengishagnaði vegna kaupa fyrirtækja á hlutbréfum í öðrum félögum og svo aftur gríðarlegum væntingum til fyrirtækja. Það sér hver maður að þegar hagnaður byggir að miklu leyti á óinnleystum gengishagnaði fyrir ákveðið tímabil þá segir það ekkert um afkomu næstu mánaða á eftir. Eðlilegt væri að verðmæti viðkomandi félags myndi hækka í samræmi við hagnaðinn hverju sinni en oftar en ekki hækkar verðmæti viðkomandi félaga eins og um sé að ræða hagnað sem tilkominn er af reglubundinni starfsemi og sé því líklegur til að vera til framtíðar. Stór ástæða þess að fyrirtæki hagnast svo mjög af þessum gengishagnaði eru svo aftur hinar gríðarlegu væntingar til fyrirtækjana sem eru að margra mati orðnar óraunhæfar. Væntingarnar hífa upp gengi og gengishækkunin býr til hagnað, þannig er um keðjuverkun að ræða. Sem dæmi um þessar væntingar má nefna að markaðsvirði banka á Íslandi hefur hækkað um 160 milljarða á 12 mánuðum. Hvers vegna skyldi það vera? Jú af framangreindum ástæðum, væntingum og gengishagnaði að miklum hluta, en auðvitað má rekja einhvern hluta þess til aukinnar verðmætasköpunnar innan þeirra sem má meðal annars rekja til útrásar þeirra og innkomu á íbúðalánamarkaðinn. Greiningadeildir bankana hafa fjallað um óraunhæfar væntingar í greiningum sínum en yfirleitt er skrifað um slíkt á lítt áberandi hátt til að draga ekki úr væntingum markaðarins og þar með gengishagnaði og verðmætum þeirra sjálfra. Réttast væri að greiningadeildirnar orðuðu hlutina eins og þeir eru, þ.e. að menn skyldu ekki fjárfesta í íslenskum hlutabréfum á því verði sem þau kosta í dag og þeir sem eiga bréfin nú ættu að selja snögglega. Garungur



Skoðun

Sjá meira


×