Erlent

Réttarhöldunum frestað

Dómsuppsögu yfir Mikhail Khodorkovsky, sem átti olíurisann Yukos, var frestað í Moskvu í morgun. Fréttaskýrendur segja þetta gert til að hlífa Pútín Rússlandsforseta við vandræðalegum fundum með vestrænum leiðtogum í næsta mánuði. Búist var við því að dómararnir í máli Khodorkovskys myndu greina frá niðurstöðu sinni í dag en í morgun var réttarhaldinu skyndilega frestað til 16. maí næstkomandi. Engin skýring var gefin á frestuninni og lögmönnum Khodorkovskys var ekki greint frá henni fyrir en nokkrum stundum síðar. Verjendurnir, sem og pólitískir andstæðingar Vladímírs Pútíns, segja ekki ólíklegt að skipun hafi borist frá Kreml um að réttarhaldinu yrði frestað. Þann 9. maí kemur fjöldi þjóðarleiðtoga til Moskvu og vilja andstæðingar Pútíns meina að dómurinn hefði orðið tilefni til uppþota. Því komi sér vel fyrir Pútín að engin niðurstaða verði fengin í málið fyrir þann tíma. Saksóknarar í málinu vilja að Khodorkovsky verði dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir skattaundanskot og svik en sérfræðingar telja allt eins líklegt að dómurinn verði nær tveimur árum. Pútín er þó sagður vilja að Khodorkovsky sitji inni í það minnsta til ársins 2008, þegar kjörtímabili Pútíns líkur. Olíurisinn Yukos, sem Khodorkovsky átti, var seldur upp í skuld á dularfullu uppboði á síðasta ári og er nú í raun orðinn ríkiseign. Herferðin á hendur Yukos og Khodorkovsky hefur meðal annars orði til þess að fjárfestar þora ekki að leggja fé í verkefni í Rússlandi af ótta við óútreiknanlega hegðan stjórnvalda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×