Erlent

Jómfrúarferð stærstu þotu heims

Stærsta farþegaþota heims, Airbus A380, hóf sig til flugs í fyrsta sinn á flugvellinum í Tolulouse í Frakklandi á níunda tímanum í morgun. Flugtakinu hafði verið frestað um u.þ.b. eina og hálfa klukkustund en ástæðan fyrir því hefur ekki verið gefin upp. Fjöldi fólks var saman kominn við flugvöllinn í Toulouse í Frakklandi til að fylgjast með þessum flugsögulega atburði. Smíði vélarinnar er samstarfsverkefni flugvélaiðnaðarins í Frakklandi, Bretlandi, Spáni og Þýskalandi og hafa stjórnvöld í löndunum styrkt framkvæmdina bæði leynt og ljóst. Vélin á að geta flutt á milli 550 til 800 farþega, allt eftir innréttingu og þjónustustigi, og tekur hún þar með fyrsta sætið af Boeing 747 sem hefur verið einráð á stórflugvélamarkaðnum í hátt í 40 ár. Ef farþegatalan er aðeins 550 verður pláss fyrir spilavíti, líkamsræktaraðstöðu og tollfría verslun, svo eitthvað sé nefnt. Ef allt tilraunaflug gengur að óskum verður vélin tekin í notkun á næsta ári og hafa u.þ.b. 150 vélar þegar verið pantaðar til flugfélaga um allan heim. Athygli vekur að ekkert af stóru bandarísku flugfélögunum og Brithis Airways, sem eru stærstu flugfélög heims og nota flest meðal annars minni gerðir, hafa pantað nýju breiðþotuna, hvað sem veldur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×