60 deyja daglega
Fjögur hundruð árásir eru að jafnaði gerðar í Írak í hverri viku og daglega týna um sextíu manns lífi í þeim. Tuttugu og fimm mánuðir eru liðnir frá innrásinni í Írak til að steypa Saddam Hussein af stóli og enn hefur ekki tekist að kveða niður uppreisnarmenn í landinu. Í hverri viku gera þeir og hryðjuverkamenn í Írak um fjögur hundruð árásir á hersetuliðið, lögreglu og óbreytta borgara. Í helmingi árásanna týnir fólk lífi, um sextíu á dag. Fjöldi árásanna þykir sýna best styrk uppreisnar- og hryðjuverkamanna í Írak og hversu illa hersetuliðinu, og upp á síðkastið, írökskum sveitum gengur að berjast við þá. Meyers, yfirmaður bandaríska heraflans í landinu, og Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, voru þó alls ekki á því í gær, heldur sögðu ástæðuna þá að hersetuliðið einbeitti sér að því að þjálfa írakskar sveitir í stað þess að berjast við óróaseggi. Engu að síður er bent á að þrátt fyrir aðgerðir um hundrað og fjörutíu þúsunda bandarískra hermanna og álíka margra írakskra hermanna, sjái ekki högg á vatni: árásir nú séu jafnmargar og fyrir ári síðan þegar ástandið var sem verst. Nú er því ekki síst kennt um að ekkert gengur við myndun ríkisstjórnar í Írak. Kosningarnar í janúar áttu að vera fyrsta stóra skrefið í átt að stöðugleika og efnahagslegri endurreisn en við tók pólitískt þref sem stendur enn. Undanfarna daga hefur verið beðið fregna af skipan stjórnar en tilkynningu um hana er frestað æ ofan í æ. Á meðan eru Írakar sjálfir ekki í stakk búnir til að taka á óöldinni og því fátt sem bendir til stórtækra breytinga á næstunni.