Erlent

Áhyggjur af áhugaleysi kjósenda

Forskotið í skoðanakönnunum er afgerandi og stjórnarandstaðan viðurkennir að hún eigi á brattann að sækja. En þegar aðeins vika er til kosninga eru stjórnendur kosningabaráttu Verkamannaflokks Tony Blair forsætisráðherra farnir að hafa áhyggjur af því að sigurvissan kunni að valda því að margir stuðningsmenn flokksins meðal kjósenda muni ekki telja taka því að mæta á kjörstað. Og þar með stefna sigrinum í hættu. Alan Milburn, aðalkosningastjóri Verkamannaflokksins, varaði stuðningsmenn flokksins við því í gær að kæruleysi af þeirra hálfu gæti kostað flokkinn tækifærið til að sitja að stjórnartaumunum þriðja kjörtímabilið í röð. Milburn sakaði Michael Howard, leiðtoga íhaldsmanna, um að reyna lævíslega að skapa falska öryggistilfinningu meðal væntanlegra kjósenda Verkamannaflokksins. Howard lét í þessari viku svo ummælt að Íhaldsflokkurinn væri "tvö-núll undir í hálfleik". "Þeir láta núna eins og þeir séu búnir að vera í þeirri von að það sé eini leikurinn sem þeir hafi í stöðunni til að eiga möguleika," sagði Milburn um þessa hernaðartækni íhaldsmanna. Hann benti á að einn aðalskipuleggjandinn að kosningabaráttu Íhaldsflokksins, Lynton Crosby, væri þekktur fyrir að beita þessari tækni, en hann hefur hjálpað ástralska forsætisráðherranum John Howard til að vinna kosningar fjórum sinnum í röð. Flestir stjórnmálaskýrendur eru á því að mjög ólíklegt sé annað en að Verkamannaflokkurinn sigri. Fylgi flokksins er jafnar dreift yfir allt landið en fylgi íhaldsmanna. Vegna þess hvernig einmenningskjördæmakerfið virkar veldur þetta því að Íhaldsflokkurinn þyrfti um tíu prósentustiga forskot til að eiga möguleika á sigri. En falli saman lítil kjörsókn og að hátt hlutfall fylgismanna Verkamannaflokksins sitji heima gæti það minnkað þingmeirihluta Verkamannaflokksins til muna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×