Erlent

Ísraelar og Palestínumenn sammála

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Condoleezza Rice, segir að Ísraelar og Palestínumenn séu sammála um hvernig skuli staðið að brottflutningi gyðinga frá Gaza-svæðinu. Rice, sem nú er í heimsókn í Miðausturlöndum, hefur fundað bæði með leiðtogum Palestínumanna og gyðinga og segist nokkuð bjartsýn um framtíðina. Hún segir að unnið hafi verið að aðferðum til að flýta fyrir brottflutningnum og styðja leiðtogafund þeirra Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, og Ariels Sharons, forsætisráðherra Ísraels, á komandi dögum. Nokkrar meginreglur um brottflutninginn hafi verið þróaðar sem leiðtogarnir hafi samþykkt að fara eftir. „Allir eru sammála um að áætlun Ísraelsmanna um að flytjast á brott frá Gaza og svæðum á norðurhluta Vesturbakkans geti verið mikilvægt skref í friðarferlinu í áttina að því að sú sýn rætist að til verði tvö lýðræðisleg ríki, Ísrael og Palestína, sem búi hlið við hlið við friðsemd og öryggi,“ sagði Rice á blaðamannfundi í dag. „Samkvæmt því skulbinda yfirvöld í Ísrael og Palestínu sig til að tryggja að brottflutningur fari hnökralaust fram og án ofbeldis, og á þann hátt sem kemur best út fyrir efnahag Palestínumanna.“ Brottflutningur gyðinga frá Gaza og landnemabyggðum á Vesturbakkanum á að hefjast eftir tvo mánuði. Bæði Palestínumönnum og gyðingum er mjög í mun að það gangi friðsamlega fyrir sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×