Sport

Jörundur spáir Blikasigri

Í öllum þremur leikjunum í VISA-bikarnum í kvöld leika lið úr Landsbankadeildinni gegn liðum úr 1.deild. Toppliðin tvö í 1.deildinni kljást bæði við lið sem eru um miðja Landsbankadeildina og því gæti fólk séð í þeim leikjum hver munurinn milli deildanna tveggja er. Jörundur Áki Sveinsson, þjálfari Stjörnunnar, spáir í leiki kvöldsins en Stjarnan tapaði 2-0 í 32 liða úrslitum keppninnar fyrir Grindavík.Sigurður Jónsson og lærisveinar hans í Víking Reykjavík taka á móti KR-ingum og reiknar Jörundur með hörkuleik."KR-ingum hefur ekki gengið vel í deildinni og ég tel nú ekki möguleika á því að þeir verði Íslandsmeistarar þannig að þeir eru örugglega ákveðnir í að komast áfram í bikarkeppninni. Það er því ábyggilega allt undir hjá þeim í kvöld en að sama skapi þá eru Víkingarnir með bullandi sjálfstraust. Þeir eru í öðru sæti í 1.deildinni, með baráttuglatt og vel skipulagt lið. Þetta verður því ekki ójafn leikur en ég giska á að KR-ingarnir nái að sigra 2-1." sagði Jörundur. Breiðablik úr Kópavogi trjónir taplaust á toppi 1.deildarinnar með sjö stiga forskot á Víking sem er í öðru sætinu. Blikar fara upp á Skipaskaga og leika gegn ÍA."Þetta er mjög athyglisverður leikur. Mínir fyrrum félagar í Breiðabliki hafa verið spútniklið sumarsins í 1.deild. Þar eru þeir með afgerandi forystu, sprækt lið með duglega stráka. Í bland við þessa efnilegu stráka hafa þeir síðan reynslubolta og ég spái þeim eins marks sigri á Akranesi." sagði Jörundur en hann er fyrrum þjálfari Breiðabliks. Hann spáir þó ekki jöfnum leik að Hlíðarenda en þar leikur Valur gegn Haukum úr Hafnarfirði sem eru í sjötta sæti 1.deildar. Haukar unnu úrvalsdeildarlið Þróttar óvænt í 32 liða úrslitum eftir vítaspyrnukeppni. "Úrslitin í þessum leik ættu að vera nokkuð borðliggjandi. Ég held að það sé alveg klárt mál að þar muni Valur sigra, Haukar hafa verið að sýna öllu meira í 1.deild en búist var við af þeim í upphafi móts en Valsliðið er of sterkt fyrir þá. Leikmenn Vals hafa mikið sjálfstraust og bara mjög gott fótboltalið, ég veit að Willum ætlar sér ekkert annað en sigur. Ég spái því að þeir vinni nokkuð létt í þessari viðureign 4-0." sagði Jörundur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×