Erlent

Árásir settu mark sitt á daginn

Milljónir Íraka greiddu atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá landsins í dag í kosningum sem fóru nánast fram með friði og spekt. Árásir og byssubardagar settu að vísu mark sitt á daginn, en yfirvöld eru mjög ánægð með framganginn. Það ríkir enginn einhugur um stjórnarskrárdrögin og víst er að ekki voru allir þeir sem greiddu atkvæði á einu máli. Það vakti athygli og ánægju stjórnvalda að fjöldi súnníta mætti á kjörstað en þeir sniðgengu margir hverjir þingkosningar í janúar og eru almennt mótfallnir stjórnarskránni. Uppreisnar- og hryðjuverkamenn höfðu hótað árásum en gríðarleg öryggisgæsla virðist hafa gert þeim erfitt fyrir. Á þeim svæðum þar sem andspyrnan við hersetuliðið og ný stjórnvöld hefur verið einna mest var þó nokkuð um árásir en mannfall var lítið miðað við þingkosningarnar þegar fjörutíu voru drepnir. Yfirkjörstjórn Íraks segir allt eins von á niðurstöðum á morgun en stjórnmálaskýrendur í Írak segja úrslitanna ekki að vænta fyrr en eftir nokkra daga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×