Innlent

Ákvörðun verði tekin um Sundabraut

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn vilja að ákvörðun um legu Sundabrautar verði tekin sem fyrst. Þeir vilja sjálfir að gerð verði lágbrú af Gelgjunesi yfir í Grafarvog en það er jafnframt ódýrasta leiðin. Sjálfstæðismenn kynntu tvær tillögur sínar í borgarstjórn fyrir fyrsta borgarstjórnarfund ársins í dag. Þeir vilja að rekstur fjarskiptafyrirtækja Orkuveitu Reykjavíkur sæti úttekt hjá innri endurskoðun Reykjavíkurborgar en hún gegnir sambærilegu hlutverki og Ríkisendurskoðun. Þá kynntu sjálfstæðismenn hugmyndir sínar um lagningu Sundabrautar. Leiðin sem þeir vilja fara liggur af Kleppsmýrarvegi út á svonefnt Gelgjunes og þaðan yfir í Grafarvog. Vilhjálmur Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borginni, segir að það sé vegna umferðaröryggis, áhrifa á gangandi vegfarendur og nýtingar hafnarsvæðisins. Vilhjálmur bendir á að Skipulagsstofnun telji lágbrú besta kostinn en þó með annarri útfærslu, minni uppfyllingu og lengri brú og undir það taki sjálfstæðismenn. Hann segir brýnt að hefjast handa, allar upplýsingar liggi fyrir og því eigi að fara í verkið hratt og vel þannig að brúin verði opnuð í ársbyrjun 2009. Vilhjálmur gefur lítið fyrir rök um að hábrú sem liggi að Holtavegi beini frekar umferð fólks í miðbæ Reykjavíkur. Hann segir ólíklegt að fólk sem ætli í Smáralind eða eitthvað annað og fari yfir hábrú við Holtaveg sé allt í einu komið í miðbæinn án þess að vita hvers vegna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×