Innlent

Höfðu heimild til að taka ákvörðun

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson höfðu fulla lagalega heimild til þess að taka einir þá ákvörðun að styðja innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak. Þetta segir Eiríkur Tómasson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands. Helsta þrætuefni íslenskra stjórnmála síðustu vikna og mánaða er hvort Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni hafi verið heimilt að lýsa yfir stuðningi Íslands við innrásina í Írak fyrir tveimur árum. Þrætan er pólitísks eðlis en forseti lagadeildar segir engan vafa leika á lagalegri heimild forystumanna stjórnarflokkanna til þeirrar ákvörðunar. Hún sé ekki þess eðlis að það þurfi að bera hana undir Alþingi samkvæmt stjórnarskrá og þess vegna hafi þessir æðstu handhafar framkvæmdavaldsins fulla heimild til að taka ákvörðunina og beri pólitíska ábyrgð á henni. Þá hefur mikið verið deilt um hvort ráðherrarnir hafi ráðfært sig við utanríkismálanefnd áður en ákvörðunin var tekin og ekki síður rifist um hvort þeim hafi borið skylda til þess og er bent á að 24. grein þingskaparlaga segi: „Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum." Eiríkur segir að í raun sé ekki alveg ljóst hvað felist nákvæmlega í þessu ákvæði vegna þess að hugtakið meiri háttar utanríkismál geti merkt ansi margt. Það geti verið mál í heild sinni, eins og Íraksmálið, eða allar ákvarðanir sem teknar séu í tengslum við það mál og geti talist meiri háttar. Eiríkur telur rétt að skoða hvort ástæða sé til að skerpa orðalag greinarinnar en ekki síður að kanna hvernig þessu ákvæði hafi verið beitt hingað til. Hann segir að sér virðist fljótt á litið að ýmsar ákvarðanir í meiri háttar málum hafi alls ekki verið bornar undir utanríkismálanefnd og ef svo sé, sé ekki um neitt frávik að ræða í þessu tilviki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×