Skoðun

Ísland örum skorið?

Sæll Egill, Takk fyrir góðan þátt á sunnudaginn eins og alltaf. Mér fannst umfjöllunin um “Ísland örum skorið” kortið ansi gagnrýnislaus af þinni hálfu. Ég skoðaði kortið í morgun og sé ýmislegt gagnrýnivert. Það er t.d. skemmtilegt að eitt stærsta miðlunarlón Íslands, Þingvallavatn, er ekki merkt inn en það þjónar sennilega ekki tilganginum þar sem erfitt er að telja Íslendingum trú um að það svæði sé í rúst eftir virkjunarframkvæmdir. Sama gildir um farveg Sogsins sem er heldur ekki merktur. Svo kemur þessi trú þessa hóps á jarðvarmavirkjanir mér alltaf jafn mikið á óvart. Þær eru alls ekki jafn umhverfisvænar og þau virðast halda. T.d. er affallsvatn Nesjavallavirkjunar farið að hita upp grunnvatn í kringum Þingvallavatn. Þá er djásn Reykvíkinga Nesjavallavirkjun ekki merkt inn á kortið enda hefur virkjunin mjög jákvæða ímynd sem ekki hentar að gagnrýna á svona korti. Stærð svörtu svæðanna er einnig mjög skrítin, þ.e. 5 km belti umhverfis árnar – raunverulegt áhrifasvæði er yfirleitt miklu minna og þessi skilgreining á víðerni er gríðarlega teygjanleg og það sést best þegar maður fer á svæðið. Þegar horft er fram í tímann þá er náttúran sjálf oft miklu stórtækari en við mennirnir. Því er t.d. spáð að eftir um 200-300 ár verði nánast allir jöklar á Íslandi horfnir sem hefur náttúrulega miklu stórkostlegri áhrif á hálendið heldur en það sem rakið er á þessu kort þó að sjálfsögðu sé það ekki ástæða til að ganga illa um landið. Hins vegar ber að fagna umræðunni því það er mikilvægt að sátt náist um þessi mál í þjóðfélaginu. Bestu kveðjur, Sigurður Magnús



Skoðun

Sjá meira


×