Erlent

Danir vilja Dani heim

Danir vilja hermenn sína heim frá Írak, eftir því sem fram kom í könnun sem Gallup í Danmörku gerði fyrir Berlingske Tidende. 41 prósent þeirra sem svöruðu spurningunni segja að það eigi að fastsetja nú hvenær hermennirnir koma heim en um fjórðungur vill að þeir komi tafarlaust heim. Tæplega helmingur stuðningsmanna stjórnarflokkanna vill að skýrt sé frá hvenær dvöl hermannanna lýkur í Írak. Per Stig Møller, utanríkisráðherra Dana segir við Berlingske Tidende að ef nú verði ákveðið að draga herinn til baka, eða ákveðin dagsetning sett, muni það hvetja hryðjuverkamenn til að halda áfram aðgerðum sínum í Írak. Könnunin sýnir einnig að stuðningur Dana við ákvörðun ríkisstjórnarinnar að styðja Íraksstríðið fer minnkandi. Nákvæmlega helmingur kjósenda telur að þetta hafi verið röng ákvörðun, en 44 prósent telja hana rétta. Ekki er vitað hversu mikil áhrif þetta mun hafa á kosningarnar í Danmörku sem fram munu fara 8. febrúar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×