Innlent

Efling vegagerðar með veggjöldum

Gerð verður úttekt á kostum til að auka fjárfestingar í vegagerð með veggjöldum ef þingsályktunartillaga Einars K. Guðfinnssonar og Halldórs Blöndal, þingmanna Sjálfstæðisflokksins, verður samþykkt. Í greinargerð með tillögunni segir að Íslendingar verji líklega hlutfallslega meira fé í vegagerð en flestar aðrar þjóðir. Samkvæmt samgönguáætlun 2003 til 2014 eigi að verja tæpum 72 milljörðum króna til málaflokksins. Þó sé ljóst að þörf sé á frekari uppbyggingu og að tugi milljarða króna vanti til að uppfylla allar óskir. Þingmennirnir nefna að það tíðkist víða erlendis að nota veggjald við gerð stórra og dýrra samgöngumannvirkja. Hér hafi slíkum kostum hins vegar lítið verið beitt. Því þurfi að hyggja að því hvar megi koma við frekari veggjöldum til að stuðla að aukinni vegagerð í landinu. Verði tillagan samþykkt verður samgönguráðherra falið að gera úttekt á möguleikum í þeim efnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×