Innlent

Óvíst um afturvirkni lagabreytinga

Óvíst er hvort breytingar sem boðaðar hafa verið á lögum um eftirlaun ráðherra og alþingismanna verði afturvirkar. Sjö af níu fyrrverandi ráðherrum þiggja eftirlaun þótt þeir séu enn í fullu starfi hjá ríkinu og er það í samræmi við eftirlaunfrumvarp sem samþykkt var árið 2003. Ekki hefur verið upplýst hverjir það eru sem þiggja eftirlaun og hverjir ekki en ráðherrarnir eru ýmist sendiherrar eða forstjórar í daga. Þetta er þróun sem menn segjast ekki hafa séð fyrir og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hefur boðað að breytingar verði gerðar á lögunum enda hafi tilgangur frumvarpsins verið að gera mönnum kleift að hætta stjórnmálaafskiptum fyrr en ella og endurnýja þannig þingliðið auk þess sem stefnt var að því að gera formenn stjórnarandstöðuflokkanna jafnréttháa ráðherrum. Þingmenn stjórnarandstöðunnar eru sammála forsætisráðherra um að það þurfi að gera breytingar á frumvarpinu til þess að koma í veg fyrir að menn geti þegið laun á tvennum vígstöðvum. Þær breytingar eru hins vegar alls ekki einfaldar, til dæmis er óvíst hvort nýtt frumvarp getur orðið afturvirkt og þeir sem nú þiggja tvöföld laun verði sviptir þessum réttindum eða hvort þeir muni fá þau áfram. Steingrímur Ólafsson, upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins, sagði í samtali við fréttastofuna að lögspekingar lægju nú yfir þessu máli til þess að finna út hvað sé hægt að gera.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×