Menning

Gengur bara betur næst

"Við þrjár erum duglegar að hittast enda búum við ekkert svo langt frá hvorri annarri," segir Birna Ósk Hansdóttir eiginkona Einars Arnar Jónssonar landsliðsmanns í handbolta. Hún og Þóra Þorsteinsdóttir eiginkona Guðjóns Vals Sigurðarsonar og Eivor Pála Blöndal kærasta Alexanders Petersonar eru staddar hér á landi þar sem menn þeirra hafa verið í Túnis að keppa á heimsmeistaramótinu í handbolta. Ekkert kynlífsbann fyrir leiki Makar landsliðsmanna eru tiltölulega nýkomnar til Íslands frá Madrid þar sem þær og landsliðið dvöldu í fimm daga í boði HSÍ. "Við viljum þakka HSÍ fyrir þetta frábæra framtak og þá sérstaklega Viggó Sigurðsyni og Evu konunni hans sem voru sprautan að þessu öllu saman," segir Birna og bætir við að ferðin hafi verið afar góð til að hrista hópinn saman enda sé strákunum mikilvægt að halda góðum móral og ekki bara í sínum hóp heldur líka í hóp kvennanna. "Þeir eru ekkert að ýkja í viðtölum þegar þeir segja að það skipti ekki máli hversu mörg mörk þeir skoruðu, aðalatriðið sé að liðið sigri. Mórallinn í hópnum er mjög góður enda hafa margir þessara stráka spilað saman síðan í unglingalandsliðinu og þekkjast mjög vel. Í liðinu eru líka mikið af nýjum strákum og þarna í Madrid var frábært að fá að kynnast þeim og kærustum þeirra betur." Aðspurðar segja þær að Viggó þjálfari hafi sem betur fer enga trú á kynlífsbanni fyrir mót. "Að mati hans geti verið meiri truflun fyrir strákana að hafa okkur ekki hjá sér eins og að hafa okkur á staðnum. Rútína þeirra er náttúrulega að vera nálægt okkur," segir Birna og Eivor bætir við að löng fjarvera frá fjölskyldunni gæti truflað þegar pressan í handboltanum sé mikil. Engin glamúr í handboltanum Þær þvertaka allar fyrir að lífstíllinn í handboltanum sé eitthvað líkur því sem við sjáum í breska þættinum Footballers Wifes þar sem baktal og samkeppni eru í fararbroddi. "Auðvitað höldum við allar með okkar manni en hjá okkur skiptir engu máli hver er fyrirliðinn. Við erum meira bara að peppa hvora aðra og maður finnur fyrir mikilli samkennd. Sérstaklega eftir ferðina til Madrid því þar náðum við að kynnast öllum svo vel," segir Eivor og bætir við að þær séu duglegar að hittast og horfa á leikina saman ef þær komast ekki á völlinn. "Þá er mikið fjör og og mikil spenna og gott að hafa öll börnin nálægt því þau draga athyglina frá skjánum og minnka stressið." Lestu ítarlegt viðtal við stelpurnar í tímaritinu Magasín sem fylgir DV í dag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.