Sport

Roland í 18 daga bann

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Roland Valur Eradze, leikmaður ÍBV í handbolta karla var í dag úrskurðaður í 18 daga leikbann vegna óíþróttamannslegrar framkomu í bikarleik ÍR og ÍBV sl. laugardag. Roland missti algerlega stjórn á skapi sínu í leiknum þar sem hann m.a. sló til dómara og hrækti á samherja sem reyndi að fylgja honum af velli. Aganefnd handknattleikssambandsins kom saman í dag og úrskurðaði nokkra leikmenn í bönn en enginn fær að finna eins fyrir því og Roland Valur sem má ekki leika aftur fyrr en eftir 7. mars. Fyrsti leikur Rolands í banni verður í viðureign KA og ÍBV í deildinni næsta laugardag. Aðrir leikmenn fengu eins leiks bann en meðal þeirra voru Hlynur Morthens markvörður Gróttu/KR vegna brotttvísunar í leik FH og Gróttu/KR þann 08.febrúar sl, Daði Hafþórsson, einnig leikmaður Gróttu/KR vegna útilokunar í leik FH og Gróttu KR þann 08.febrúar, Kári K. Kristjánsson leikmaður ÍBV vegna brottvísunar í leik ÍR og ÍBV þann 12.febrúar og Jónatan Magnússon leikmaður KA vegna brottvísunar í leik Víkings og KA þann 13.febrúar 2005. Tvær handknattleikskonur úr meistaraflokki voru einnig úrskurðaðar í eins leiks bann. Anna Úrsúla Guðmundsdóttir leikmaður Gróttu/KR vegna brottvísunar í leik Víkings og Gróttu/KR þann 12.febrúar 2005 og Anastasia Patsion hjá ÍBV vegna útilokunar í leik Stjörnunnar og ÍBV þann 12.febrúar 2005.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×