Menning

Sendir lyfin heim

Pillurnar heim að dyrum. Það er markaðshugmynd heimsendingarapóteks sem tekur til starfa á morgun. Apótekið ætlar að bjóða öllum landsmönnum lyf á sama verði og að þau verði afhent innan sólarhrings. Lyfjaver er 7 ára gamalt fyrirtæki og er með apótek á Suðurlandsbraut. Það hefur sinnt heimsendingarþjónustu um árabil. Bessi Gíslason, yfirlyfjafræðingur hjá apótekinu, segir að á morgun þegar heimsendingarapótekið verði formlega opnað verði lyf send um allt land, en sama verð verði alls staðar. Bessi segir fyrirtækið mjög samkeppnishæft í verði og að heimsendingarþjónustan sé orðin vel skipulögð. Nú sé fyrirtækið formlega orðið að apóteki sem heiti Heimsendingarapótekið og að þjónustan sé skipulögð alla leið hvert á land sem er. Bessi segir að berist lyfseðill til fyrirtækisins um eða upp úr hádegi eigi að vera hægt að koma lyfjunum heim til viðskiptavinarins á innan við 24 tímum, sama hvar hann býr á landinu. Félagið hefur frá árinu 1999 pakkað lyfjum í skammtastærðir og sinnir í dag um 3700 manns á þann hátt, fólki í heimahúsinum, á dvalarheimilum eða öðrum heilbrigðisstofnunum. Bessi segir að fyrirtækið geti því bæði sent heim skömmtuð og óskömmtuð lyf.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.