Sport

Grindvíkingar jöfnuðu

Grindvíkingar mættu harðákveðnir til leiks á heimavelli sínum í gær og náðu að leggja granna sína úr Keflavík og jafna metin í viðureign liðanna í 1-1 og knýja fram oddaleik í Keflavík á miðvikudag. Eftir að jafnt var eftir fyrsta leikhluta 17-17, sigu heimamenn framúr og voru yfir allan leikinn og sigruðu að lokum 87-76. Það var fyrst og fremst varnarleikurinn og stórleikur Helga Jónasar Guðfinnssonar sem skóp sigurinn í gær. Keflvíkingar urðu fyrir því óláni að missa fyrirliða sinn Gunnar Einarsson af velli meiddan í byrjun leiks og kann það að hafa haft áhrif á leik þeirra, því þeir náðu sér aldrei á strik í gær. "Við vorum bara lélegir í dag", sagði Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflvíkinga, eftir leikinn. Einar Einarsson þjálfari Grindvíkinga var öllu hressari með sína menn. "Við höfum ekki verið að spila góða vörn í vetur en hún gekk upp hjá okkur í dag og það að halda Keflvíkingum í 76 stigum segir sína sögu um það. Ef menn koma jafn tilbúnir til leiks á miðvikudaginn og við vorum í dag, þá getur allt gerst. Keflvíkingarnir eru erfiðir heim að sækja, en það styttist alltaf í tapið hjá þeim og við höfum engu að tapa", sagði Einar. Oddaleikur liðanna verður í Keflavík á miðvikudaginn og þá ræðst hvort liðið kemst áfram í undanúrslitin



Fleiri fréttir

Sjá meira


×