Sport

Spilar meiddur í úrslitakeppninni

Landsliðsmaðurinn Ingimundur Ingimundarson, leikmaður ÍR, hefur verið burðast með meiðsli síðan um áramót og ljóst að hann þarf að fara í speglun hið fyrsta. Þrátt fyrir það ætlar hann að láta reyna á meiðslin og spila meiddur í úrslitakeppninni eins lengi og líkaminn leyfir. "Liðþófinn er ekki alveg nógu góður en ég get samt spilað. Ég þarf að fara í speglun en ég ætla að reyna að spila og sjá hvað gerist," sagði Ingimundur en fari hann í speglun fljótlega er ljóst að hann leikur ekki meir á þessari leiktíð. "Ég finn misjafnlega mikið fyrir meiðslunum og ég er á fullu í sjúkraþjálfun til að ná mér sem bestum. Ég vil að sjálfsögðu klára tímabilið og mun gera allt sem ég get til þess að klára tímabilið og verða meistari með ÍR." Brynjólfur Jónsson læknir gaf Ingimundi grænt ljós á að leika með landsliðinu um síðustu helgi og að hann yrði að finna það sjálfur hvað hann gæti leikið mikið í viðbót áður en hann færi í speglunina. "Það á víst ekki að vera hægt að skemma liðþófann mikið meir eins og er og því er í lagi að láta vaða," sagði Ingimundur og hló. "Það er samt enginn vökvi í hnénu og það er góðs viti. Það er samt ekki hægt að neita því að þetta er helvíti svekkjandi," sagði Ingimundur sem er í algjöru lykilhlutverki hjá ÍR og án hans minnka möguleikar ÍR á að verða meistarar umtalsvert.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×