Erlent

Stærsta farþegaþota sögunnar

Stærsta farþegaþota sem smíðuð hefur verið, Airbus A380, flaug jómfrúarflug sitt í gær. Kostnaður við þróun og smíði vélarinnar er ríflega 800 milljarðar króna og er óvíst hvort framleiðslan muni nokkurn tímann borga sig. Yfir 30.000 manns fylgdust með Airbus A380 risaþotunni hefja sig til flugs í fyrsta sinn frá Blagnac-flugvelli í útjaðri Toulouse í Frakklandi og gleði fólksins þegar vélin lenti heilu og höldnu fjórum tímum síðar var óblandin. Engir farþegar voru þó um borð að þessu sinni heldur einbeitti áhöfnin sér að því að kanna flughæfni þotunnar til hlítar. Til vonar og vara voru allir með fallhlífar á bakinu. Þúsundum mælitækja hafði verið komið fyrir í vélinni en auk þess var farangursrýmið fullt þannig að aðstæður væru allar sem raunverulegastar. Airbus A380 er sannkölluð risaþota. Hún er 73 metrar á lengd og vegur fullhlaðin 560 tonn. Staðalútgáfa hennar rúmar 555 farþega en hægt er að breyta farþegarýminu þannig að allt að 840 komist þar fyrir. Forsvarsmenn Airbus-fyrirtækisins voru hinir ánægðustu svo og ráðamenn í löndunum sem aðild eiga að verkefninu. "Þetta eru frábærar fréttir fyrir Evrópusamvinnu á sviði iðnaðar," sagði Jacques Chirac Frakklandsforseti, eflaust góðum fréttum feginn mitt í kosningabaráttunni um stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins. Flugið markar endalok ellefu ára þróunarstarfs sem hefur kostað ríflega 800 milljarða króna. Nálega þriðjungur þess er greiddur af skattfé þjóðanna sem að verkefninu standa. 154 pantanir hafa þegar borist en talsvert fleiri þarf til að verkefnið standi undir kostnaði. Enda þótt A380 sé mun hagkvæmari í rekstri en júmbóþotan Boeing 747 þá benda sérfræðingar á að tími slíkra risaþotna sé sennilega liðinn. Framtíðarmöguleikarnir liggi í smærri en langdrægari þotum á borð við Boeing 787 Dreamliner. Yfir 287 slíkar vélar hafa verið pantaðar af fjölda flugfélaga og er Icelandair þar á meðal. Vinsældirnar ættu að vera Boeing-fyrirtækinu kærkomnar því í gær tilkynnti bandaríski flugvélarisinn að hagnaður fyrirtækisins hefði dregist saman um 14 prósent á fyrsta ársfjórðingi 2005.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×