Erlent

500 tonna fljúgandi flykki

Loftið var hlaðið spennu á flugvellinum í Toulouse í Frakklandi í morgun þar sem þúsundir biðu þess að sjá nærri fimm hundruð tonna risaflugvél á tveimur hæðum taka á loft.  Um er að ræða stærstu farþegaþota sögunnar, Airbus A380. Fimmtíu þúsund manns biðu þess að flykkið hæfi sig á loft. Flugtakið tókst án nokkurra vandræða og fyrsta tilraunaflug vélarinnar hófst. Vélin er engin smásmíð. Vænghafið er rétt tæpir áttatíu metrar sem er lengra en fyrsta flug Wright-bræðranna, 17. desember 1903. Á vængjunum mætti leggja sjötíu fólksbílum. Væru sætin tekin innan úr vélinni væri pláss fyrir tíu veggtennisvelli inni í henni. Rafleiðslurnar um borð eru samtals 500 kílómetrar að lengd. Borin saman við keppinautinn frá Boeing, júmbóþotuna 747, er A380 fimmtán metrum breiðari, fjórum metrum hærri, tveimur metrum lengri og hundrað og átján tonnum þyngri. Það tók tíu ár að hanna vélina og til þess var kostað sem nemur nærri þúsund milljörðum króna. Sérfræðingar telja að Airbus verði að selja allt að sjö hundruð vélar til að eiga fyrir kostnaði en hingað til hafa rétt rúmlega hundrað og fimmtíu vélar verið seldar. Þó að A380 sé gríðarstór vél er hún þó ekki stærsta vél flugsögunnar heldur eru rússneskar, eða öllu heldur sovéskar. Antonov 225 vélar stærri. Einungis voru smíðaðar tvær slíkar vélar til að flytja sovéskar geimskutlur. Airbus býður upp á ýmiskonar nýstarlega möguleika um borð í vélinni, henti flugfélögum að nýta sér þá: barir, spilavíti, sturtur og bókasöfn eru meðal þess sem koma mætti fyrir. Sé vélinni skipt upp í þrjú farrými, fyrsta, viðskipta- og almennt farrými, komast 555 farþegar fyrir. Sé hins vegar aðeins eitt farrými má troða 853 farþegum fyrir - en þá er hætt við að vélin líktist helst stórri sardínudós. Eftir fjögurra klukkustunda langt tilraunaflug lenti vélin mjúklega á vellinum í Toulouse við mikinn fögnuð áhorfenda og stjórnenda Airbus. Nú taka við frekari próf en fyrsta vélin verður afhent í byrjun næsta árs, ef allt gengur að óskum. Flugvellir um allan heim gera nú ráðstafanir svo að hægt sé að koma farþegum í og úr risavélinni vandræðalaust, en komi til þess að hún lendi hér á landi verða farþegarnir að rölta frá henni og inn í flugstöð - eins og gert var í gamla daga. Landgangarnir eru ekki nógu langir og ekki nægilega langt á milli þeirra til að vélin komist fyrir.
MYND/AP
MYND/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×